Þið getið sent okkur póst með að smella á fígúrurnar, skrifað í Gestabókina eða skoðað Myndaalbúmin

 

 

 

24 apríl 2005

23:54

 

Á heimleið

Jæja þá líður senn að því að Hjödda leggi aftur land undir fót og komi heim úr sóttkvínni á Landsspítalanum.  Dagurinn er að sjálfsögðu búinn að einkennast af þessu og var allt kapp lagt í að koma hlutum í röð og reglu áður en húsfreyjan snýr aftur.  Að öðru leyti hafa þessir tólf dagar einkennst af rólegheitum hjá okkur feðginum og höfum við bara notið þess að vera heima í sól og sumari, ég á svölunum með bók og Birta á fleygiferð um allan skólagarðinn með vinkonum sínum.  Í síðustu viku reyndi ég þó að halda mér eitthvað við efnið og vann í ritgerðinni enda sendum við Hallur inn okkar fyrstu síður til umsjónarkennarans á miðvikudaginn.  Nú líður senn að því að við hellum okkur í að vinna niðurstöðukafla og að því loknu er skammt í að við getum farið að njóta sumarsins. 

Á meðan við höfum verið að slappa af hér heima höfum við verið dugleg að nýta línuskautana hennar Birtu og ekki mun líða á löngu uns hún þeytist hér um allt umsjónarlaust.  Ég læt hér fylgja mynd af hetjunni þar sem hún skautaði í dag á meðan ég þreif allt hátt og lágt.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Author  Eyjó

 

 

14 apríl 2005

00:18

 

Gestabók komin í lag!!

Nýtti tímann í dag í að laga gestabókina en hún er búin að vera í hassi ansi lengi núna.  Vonandi nýtir fólk sér þetta og kvittar fyrir komunni eða sendir okkur kveðju.

Ákvað líka að þar sem ég er langt frá því að vera world class bloggari og skrifa mjög sjaldan hérna að setja af stað eitthvað sem ég hef meiri áhuga á og var eitt sinn hluti af síðunni hjá mér, nefnilega Raðmorðingja síðuna.  Býst líka við að ég hendi inn einhverju öðru sem mér þykir gaman að dútla við á næstu dögum bara svona til að að æfa mig í þessu HTML dæmi.

 

Author  Eyjó

 

13 apríl 2005

19:59

 

Ein og yfirgefin

Komið að nýrri færslu hérna á síðuna, enda rúmar tvær vikur frá þeirri síðustu.  Stærstu fréttirnar núna eru örugglega að Hjödda er búin að yfirgefa okkur feðginin og er farin til Íslands að reyna að létta undir hjá systur sinni.  Hjöddu er búið að langa til að komast til að hjálpa systur sinni í hálft annað ár og var ekki lengi að samþykkja það þegar systir hennar bað hana að koma síðastliðinn sunnudag.  Samdægurs fundum við flug á klakann og nú þremur dögum seinna er hún komin á spítalann hjá Benjamín litla.  Allt er þetta búið að gerast svo hratt að maður er bara ekki að fatta þetta enn .  Einhvernveginn bjóst ég við að ég yrði fyrri til við heimshornaflakkið þar sem ég fer nú að ljúka náminu en Hjödda er komin langt fram úr mér í þeim efnum,á sléttu ári er hún búin að fara þrívegis til íslands, einu sinni til svíþjóðar, einu sinni til Köben og einu sinni til þýskalands (í lengri heimsókn þá, ss. Ekki dagsferð).  Á sama tíma er ég búinn að fara til íslands, þýskalands og köben (nokkuð lame).  Anyhoo við baunarar sem urðum eftir vonum náttúrulega að allt lukkist fyrir litlu hetjuna og að hann verði aftur farinn að klifra ofan í skúffur sem fyrst.  

Af öðru er svosem ekki mikið að segja, ég er enn að skrifa og vona enn að það hafist að skila um miðjan maí/lok maí.  Birta er á fullu í skólanum og er enn á verðlaunakerfinu þar sem hún fær verðlaun fyrir að sofa alla nóttina í sínu rúmi.  Hún rakar alveg saman verðlaununum og kom okkur Hjöddu sæmilega á óvart í þar síðustu viku þegar hún tilkynnti okkur að hún væri farin að æfa sig á línuskauta í skólanum og vildi fá svoleiðis í verðlaun . Tíu vel heppnuðum nóttum síðar er hún svo komin með sína eigin línuskauta sem hún heimtar að nota í hvert sinn sem við förum út í sjoppu.

Jæja nú læt ég þetta nægja í bili en skrifa fljótt aftur.

 

  Author  Eyjó

 

28 mars 2005

13:22

 

Páskafrí og sumartími

Jæja þá er páskafríið næstum búið og við í danaveldi komin á sumartíma.  Alltaf jafn furðulegt að tapa heilum klukkutíma, vöknuðum í gær og héldum að við værum að vera svaka dugleg að fara á fætur fyrir níu en þá var klukkan bara að verða tíu .  Annars er páskafríið bara búið að vera ansi notalegt, við erum búin að liggja í leti og endurhlaða megnið af fríinu en inn á milli höfum við verið dugleg að fara í langa göngutúra með Birtu til þess að æfa hana á hjólinu sínu.  Þessir göngutúrar virkuðu bara alveg ótrúlega vel og nú er Birta bara farin að hjóla sjálf .  Auk þessa göngutúra og að liggja í sófanum heima fórum við í dýragarðinn í Álaborg og skemmtum okkur konunglega við að skoða öll dýrin þar (myndir komnar í albúm) og á laugardaginn var okkur svo boðið í mat hjá Helgu og Ingabirni þar sem við skemmtum okkur konunglega fram á nótt.  Páskadagur var svo tileinkaður eggjum og ofáti en við byrjuðum daginn á ratleik þar sem Birta og ég áttum að finna eggin okkar (takk kærlega til allra sem sendu okkur egg).  Eftir eggjaleitina var svo hafist handa við að troða í sig og svo fór Birta út að leika sér í sól og sumarblíðu.  Þegar leið á daginn fór svo kallinn í eldhúsið þar sem hann stritaði klukkutímum saman við að matreiða páskamatinn.  Þrátt fyrir smá erfiðleika undir lokin tókst mér að matreiða indælis þríréttaðan páskamat og er mjög ánægður með afraksturinn .  Nú erum við svo bara að reyna að ná okkur eftir sykurvímu gærdagsins áður en raunveruleikinn tekur við á ný.

 

Author  Eyjó

 

20 mars 2005

19:00

 

Vika í sumartíma og vorið er loksins farið að láta sjá sig. 

Eftir fáránlega langa snjótíð (allavega miðað við danmörk) er snjórinn loksins farinn og búið að vera bjart og sólríkt að mestu alla síðustu viku.  Af okkur þremenningunum er bara allt gott að frétta.  Þ.e.a.s. fyrir utan dularfull veikindi Birtu Malínar, eins og ég hef sagt hér áður vorum við öll veik meira eða minna í febrúar og byrjuðum bara að ná okkur í upphafi mars.  Þrátt fyrir að við höfum öll verið hin hressustu hefur Birta verið að taka upp á því undanfarnar tvær vikur að fá skyndiáhlaup þar sem hún fær allt í einu illt í annað eyrað og hitinn rýkur upp úr öllu valdi.  Öllu jafna hefur verkurinn svo jafnað sig undir morgun og situr bara smávægilegur hiti eftir en þetta hefur þó gerst tvisvar sinnum núna og ollið því að hún hefur verið heima úr skóla fimm daga úr tíu.  Læknarnir hér í baunalandi eru alltaf jafn skemmtilegir og neita að skoða hana, segja bara að þar sem hún sé hress daginn eftir sé þetta bara eðlilegt og best að láta hana eiga sig.  Þetta er ég þó mjög ósáttur við þar sem hún fékk rúmlega 40 stiga hita við síðasta áhlaup og það á einungis einum til tveimur tímum.

En jæja nóg af veikindasögum familíunnar, eftir hálfan annan mánuð er þar er af nægu að taka en þó vill ég reyna að segja frá einhverju skemmtilegra.  Nú erum við með nýtt prógram í gangi til að æfa Birtu í að sofa alla nóttina í sínu eigin rúmi og gengur það vonum framar.  Prógrammið er gamalkunnugt skilyrðingarprógram líkt og Skinner kallinn hefði mælt með en samkvæmt því fær Birta stjörnu fyrir hverja nótt sem hún sefur í sínu eigin rúmi, þegar hún hefur svo safnað ákveðið mörgum stjörnum getur hún svo keypt sér verðlaun og fer stærð þeirra eftir magni stjarnanna.  Nú þegar hefur telpan unnið sér inn Barbie prinsessu og bíóferð en stefnan er nú á að vinna sér inn Diddles bangsa sem kostar hana hvorki meira né minna en 10 stjörnur (stjörnurnar verða að sjálfsögðu að vera samfelldar).  Birta hefur því ekki sést í hjönarúminu í rúman hálfan mánuð og er ég ekki frá því að king size rúmið virðist bara ansi stórt þessa dagana .

Af öðrum fréttum er nú eitthvað dapurlegt úrval en dagarnir þjóta bara áfram í einhverskonar doða þar sem þeir líkjast allir hver öðrum, sofa-borða-æfa-lesa/vinna-borða-sofa.  Svona virðast dagarnir líða á meðan ég vinn í lokaverkefninu og Hjödda hamast við aðgangskúrsinn.  Undantekningarnar eru þó að Hjödda lauk við umsóknirnar sínar og sendi þær inn í liðinni viku og er því bara að bíða og sjá (svörin koma ekki fyrr en 28 júlí) og að nú eru komnir páskar  og þá verður breytt út af vananum. 

Svo vill ég benda öllum á að síðan hefur fengið nýja einfaldari slóð svo að fólk geti átt auðveldara með að finna hana.  Nýja slóðin er http://www.birtamalin.tk

Að lokum vill ég svo minna fólk á að kvitta fyrir komunni og endilega kíkja á og skrifa athugasemdir við myndirnar í myndaalbúminu.

Påskehilsner ,

Author  Eyjó

 

8 mars 2005

22:25

 

Datt í hug að henda inn nokkrum línum bara svona til að láta vita hvað sé um að vera hjá okkur.  Allt gengur ljómandi vel barasta og við höfum í heilmiklu að snúast þessa dagana.  Birta er hress og kát og nýtur þess í botn að fara í skólann og heilsdagsskólann.  Við byrjuðum að fara með hana fyrr á morgnana til þess að við næðum að vera samferða í bæinn á morgnana og henni finnst alveg frábært að mæta í heilsdagsskólann á morgnana áður en hún fer í skólann. 

Hjödda er alveg á fullu í skólanum og gengur bara vel þó hún sé eiginlega ekki að nenna þessu menntaskóla dæmi lengur.  Hún er líka á fullu að setja saman úber-umsókn sem fer af stað í háskólann í lok vikunnar, jibbí.  Svo er það bara að krossleggja fingur og vona að þetta nægi til í þetta sinn.  Ákvörðunin hefur þó verið tekin og sama hvað gerist þá fer Hjödda í framhaldsnám sem henni langar í í haust (þó það þýði að við flytjum til Íslands aftur).

Af mér er svo nóg að frétta en ég og Hallur erum komnir á fullt með lokaverkefnið en innifalið í því er smá kortleggning af áfallahjálp i danmörku og erum við því nú á fullu að senda út spurningalista og bóka okkur í viðtöl.  Til að auðvelda okkur starfið og sjá til þess að við höldum okkur við efnið fengum við skrifstofu niðri í skóla þar sem við höfum aðgang allan sólarhringinn alla daga vikunnar.  Semsagt lokaverkefnið gengur rosa vel og við erum ennþá bjartsýnir á að klára í maí/júní.  Að öðru leyti hef ég svo verið beðinn að fara yfir lokaverkefni hjá félaga mínum og er með tvö verkefni frá íslandi sem ég er að vinna í fyrir Bjössa sála.  Og að lokum virðist sem ég gæti jafnvel verið að fara að taka að mér smá meðferð “on the side” en ég hef verið beðinn um að aðstoða einstakling sem getur ekki fengið neina hjálp frá danska kerfinu (mjög spennandi).

Semsagt alveg nóg að gera og allt of mikið til að ég haldi eitthvað áfram að skrifa hér fram á nótt.  En svona í lokin vill ég benda á að Hjödda henti einhverjum nýjum myndum inn í myndaalbúmið og fyrir þá sem ekki vita er hægt að skrifa athugasemdir við myndirnar sem við svo getum séð (mjög sniðugt).  Endilega kvittið fyrir komunni og eigiði gleðilega páska.

Author  Eyjó

 

 

24 febrúar 2005

13:51

 

Þá kom loksins að því að ég fékk af mér að skrifa eitthvað hingað inn og vinna í síðunni.  Lífið er búið að vera í hálfgerðum lamasessi síðastliðinn mánuð og virðist ætla að vera eitthvað áfram.  Ef ég á að byrja á byrjuninni þá hófst þetta allt saman um miðjan janúar þegar Hjördís lagði land undir fót og fór til Kaupmannahafnar að hitta systur sína.  Helgin sú var mjög vel heppnuð og skemmtu allir sér konunglega, þær í køben og við Birta í árósum.  Þegar Hjödda kom svo heim fékk hún að vita að systir hennar hafði veikst og var komin með leiðinda flensu. Á næstu dögum veiktist svo annar ferðafélagi þeirra og biðum við í ofvæni eftir því að Hjödda veiktist.  Loksins gerðist það svo að Hjödda fékk hita og veiktist en það var ekki nóg.  Dögum síðar veiktist Birta og fékk alveg heiftarlega í annað eyrað, læknirinn leit á hana og lét okkur hafa pensilín og dropa til að eyða eyrnavaxi.  Á meðan Birta lá með sinn skerf af flensunni veiktist svo höfuð heimilisins verst manna og lá með háan hita í heila 10 daga.  Að loknum tíu dögum héldum við svo loks að við værum sloppin og mátti það ekki seinna vera því þá var kominn tími á vetrarfrí í skólanum hjá Birtu. 

Vetrarfríið var svo í síðustu viku og gekk áfallalaust fyrir sig fyrir utan leiðindaveður en þá byrjaði einmitt að snjóa í danaveldi og kyngdi niður í rúma tvo sólahringa.  Eftir vel heppnaða snjó viku kom svo næsta áfall þegar Hjördís tók upp á því að veikjast aftur!! Og hún var ekki búin að vera veik í 2 daga þegar Birta tók upp á því að veikjast líka og fá í hitt eyrað.  Þannig að nú sit ég hér og fikta í heimasíðunni meðan allir aðrir á heimilinu liggja fárveikir undir sæng.

Skiljanlega hafa þessar hörmungar haft sæmileg áhrif á námið hjá okkur og hefur lokaverkefnið hjá mér legið í bleyti allan þennan tíma.  Við Hallur félagi minn sem ætlum að skrifa saman hittumst þó loks aftur í þessari viku og komum málunum í gang þannig að nú er allt á fleygiferð og menn ansi bjartsýnir um framhaldið.  Verkefnið verður um krísusálfræði og er ætlunin að skrifa bæði kenningalega um upptök og notkun hennar en einnig að framkvæma smávægilega rannsókn í 4 hlutum til þess að kanna stöðu hennar og notkun í danmörku í dag.  Að hluta til verður hægt að líta á rannsóknina sem svar við ógrunduðum fullyrðingum sem nýlega hefur verið kastað fram um að krísuhjálp virki ekki og er leiðbeinandi okkar mjög spenntur fyrir verkefninu.

Jæja þá er ég búinn að romsa úr mér flestu því sem mér dettur í hug að ég þurfi að segja í bili.

Author  Eyjó

 

sChiZo síður

Serial killers þessi síða var hluti af upphaflegu heimasíðunni minni og fékk mikla athygli.  Áhuginn er enn til staðar og því hef ég ákveðið að endurvekja þennan hluta síðunnar og vonandi gefst mér einhver tími til að setja mitt eigið efni inn.

                                          

         Veðrið í Árósum

                                          

                               

 

 

                                           Netverjar

Berglind Ösp

Helga Björt

Hannes

Benjamín

Andri Freyr

Dagbjört Linda og fjölskylda

Danni Hjalta

           Veðrið í Reykjavík

Heilsa

Persona.is
Netdoktor
Hreyfing

Skyr.is
Manneldisráð Íslands

Shape magazine
Kaloríu mælir

         

                                            Sálfræði

                                            Réttarsálfræði

Forensic database

The forensic psychologist

ABFP

The Stanford prison experiment

Vinnusálfræði

BPA division of occupational psychology

Resource center

Almennir sálfræðihlekkir

The Milgram experiment

Centre for psychology

ESCOP

NACBT

 

Annað sniðugt

Mogginn

Vísir/Fréttablaðið

B2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Eyjó og Hjödda. 2005 Danmörk